Sprengisandslína - hálendisleið


23.02.2017

Framkvæmd

Til að fá úr því skorið hvort hálendisleið geti verið raunhæfur kostur til að bæta raforkukerfi landsins og auka flutningsgetu, öryggi raforkuafhendingar og gæði raforku hefur Landsnet hafið mat á umhverfisáhrifum raflínu um Sprengisand.

Um árabil hafa flutningstakmarkanir og óstöðugleiki verið mikið vandamál í rekstri byggðalínunnar og er svo komið að ástandið hamlar atvinnuuppbyggingu og afhendingaröryggi raforku á landinu. Í kerfisáætlun Landsnets er tenging frá raforkukjarnanum á Suðurlandi til Norðurlands sett fram sem hluti af valkostum sem gætu bætt fyrir ofangreinda annmarka. Þar er raflína um Sprengisand mikilvægur hlekkur. 

Um er að ræða nýja 220 kV raflínu, frá tengistað við Langöldu á Landmannaafrétti að áætluðu tengivirki við Eyjadalsá vestan Bárðardals, og er heildarlengd hennar um 195 km. 

Undirbúningur mats á umhverfisáhrifum hófst árið 2014. Drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt hagsmunaaðilum og almenningi , m.a. í opnu húsi sunnan og norðan heiða. Í ljósi nýrra árherslna og ábendinga við kerfisáætlun er unnið að frekari útfærslum á matsáætluninni, þar á meðal mögulegum jarðstrengjakostum á hluta leiðarinnar eða í heild. 

Aftur í allar fréttir